NBD Á ÍSLANDI – – – – – – – Nýr vefur í undirbúningi

Norrænn vettvangur um byggingarmál

Saga NBD á Íslandi

Stjórn NBD á Íslandi gaf árið 2010 út ritið Norrænn byggingardagur / Nordisk byggdag 1927 – 2007 í tilefni áttatíu ára afmælis NBD. Um er að ræða veglegt rit sem dreift var prentuðu til fulltrúa NBD og pdf skjal af því er á þessari síðu.

Norrænn byggingardagur / Nordisk byggdag 1927 -2007 (pdf skjal).

Norrænn byggingardagur (NBD) eru ein elstu starfandi samtök um norræn málefni. Allt frá árinu 1927 hafa verið haldnar ráðstefnur til skiptis í löndunum fimm en sú fyrsta á Íslandi var haldin 1968.  Viðfangsefni á ráðstefnunum gefa ágæta mynd af áhersluatriðum í byggingariðnaði og skipulagsmálum og stöðu mála hjá gestgjafalandinu á hverjum tíma. 

Í formála ritsins segir Þorvaldur S. Þorvaldsson, formaður NBD á Íslandi, sem nýlega var einnig formaður norrænu samtakanna, meðal annars það mikils virði að eiga góða og nána vini þegar kreppir að og vonandi að þetta rit verði hvatning til framhalds á samstarfi þjóðanna og fróðleiksbrunnur þeim sem við taka. Ritið er gefið út á íslensku og sænsku. Gefur það góða yfirsýn yfir stærstu atburði samtakanna, það er ráðstefnur NBD.

Norræni byggingardagurinn á Íslandi á bakgrunn í ráðstefnum arkitekta á Norðurlöndum allt frá síðustu aldamótum. Í tímariti iðnaðarmanna árið 1927 segir Guðmundur H. Þorláksson frá ráðstefnu í Stokkhólmi sem Svíar kalla Nordisk Bygnadsdag. Fara hér á eftir nokkrir kaflar úr grein hans:

„Ráðstefna þessi er þannig tilkomin, að síðastliðin 30 ár hafa norrænir byggingarmeistarar (Arkitektar) árlega haldið fund með sjer, til að auka viðkynningu, ræða ýms mál er snertir stjettina, skoða og læra hver af öðrum. Fundir þessir hafa verið haldnir í norrænu löndunum á víxl. Á síðasta fundinum í Helsingfors í Finnlandi 1926 komu þeir sjer saman um, að fundir þessir þyrftu að ná til allra Iðnaðarmanna í byggingarfaginu, svo þeir einnig fengju tækifæri til að kynnast og læra hver af öðrum, og var samþykkt að halda almenna norræna ráðstefnu og sýningu í Stokkhólmi 1927. Formaður og frumkvöðull ráðstefnunnar var prófessor Ragnar Östberg sá er bygt hefur ráðhúsið í Stokkhólmi og talinn er einhver þektasti byggingarmeistari Norðurálfunnar“.

Á ráðstefnu í Osló 1938 gengu Íslendingar síðan formlega inn í Norræna byggingardaginn. Þannig að á þessu ári eru íslensku samtökin 67 ára. Þessar ráðstefnur voru fyrst haldnar á fjögurra ára fresti til skiptis á hinum Norðurlöndunum en eftir 1965 á þriggja ára fresti.

Fyrsta ráðstefnan á Íslandi var haldin í Reykjavík árið 1968 og bar yfirskriftina „Boligform“. Ráðstefnugestir voru um 900 og ráðstefnan sú fjölmennasta sem þá hafði verið haldin hérlendis. Á Íslandi voru ráðstefnur samtakanna einning haldnar 1983, 1999 og 2005.

  Næsta stóra ráðstefnan sem ráðgerð er á Íslandi verður árið 2015 en það verður – NBD 30.

Auglýsingar
%d bloggurum líkar þetta: